Prjónahópurinn fjölmennir í prjónakaffi

27. nóv. 2008

Í gær var haldið síðasta prjónakaffi deildarinnar fyrir jól og mættu yfir þrjátíu hressar prjónakonur. Þær komu með prjónavörur sem þær hafa unnið að síðasta mánuðinn og fengu meira garn til að halda áfram að prjóna. Svo voru veitingar í boði sem þær gæddu sér á yfir prjónum og spjalli. Framlag þessara sjálfboðliða er sent til barna og fjölskyldna í neyð í Malaví og Gambíu en einnig í Rauða kross búðirnar hér á landi þar sem alltaf er mikil eftirspurn eftir til dæmis handprjónuðum vettlingum og sokkum.

Prjónakaffi er alltaf haldið síðasta miðvikudag í hverjum mánuði. Áhugasamir sem vilja bætast í hópinn eru eindregið hvattir til að hafa samband við starfsfólk Kópavogsdeildar í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is.

Næsta prjónakaffi verður miðvikudaginn 28. janúar 2009 kl.16-18.