MK-nemar fá viðurkenningu fyrir vel unnin sjálfboðaliðastörf

12. des. 2008

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi í áfanganum SJÁ 102 fengu viðurkenningu á dögunum fyrir vel unnin sjálfboðaliðastörf hjá Kópavogsdeild. Nemendurnir voru ellefu í áfanganum á þessari önn og unnu sjálfboðin störf í Rjóðrinu, með Eldhugum og í Dvöl. Þar að auki sátu þeir grunnnámskeið Rauða krossins þar sem þeir lærðu um upphaf, sögu, hugsjónir og verkefni hreyfingarinnar. Þeir tóku einnig þátt í landssöfnun Rauða krossins í október, Göngum til góðs, héldu dagbók um störf sín og lokaverkefni þeirra var að halda handverksmarkað í sjálfboðamiðstöðinni.

Á markaðinum voru seld handverk sjálfboðaliða deildarinnar sem og handverk frá Mósambík en ágóðinn af markaðinum rann til að styrkja ungmenni í Maputo-héraði í Mósambík. Kópavogsdeildin er í vinadeildasamstarfi með Rauða krossinum í Maputo-héraði og styrkir uppbyggingu þeirrar deildar. Markaðurinn gekk mjög vel og alls söfnuðu MK-nemarnir 500 þúsund krónum.   

Markmið áfangans er að nemendur kynnist sjálfboðnu starfi hjá Rauða krossinum. Nemendur vinna sjálfboðið starf yfir önnina í samráði við kennara og Kópavogsdeildina. Meðal verkefna í boði eru aðstoð við aldraða og einmana, störf í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, störf í Rjóðrinu, hvíldarheimili fyrir langveik börn, og félagsstarf með ungum innflytjendum.