Alþjóðlegir foreldrar hittast aftur á nýju ári

14. jan. 2009

Fyrsta samvera Alþjóðlegra foreldra á nýju ári verður haldin fimmtudaginn 15. janúar kl. 10-11.30 í sjálfboðamiðstöð deildarinnar í Hamraborg 11. Alþjóðlegir foreldrar er hópur foreldra frá hinum ýmsu löndum sem hittast vikulega með börnin sín í sjálfboðamiðstöðinni. Við bjóðum velkomna foreldra allra landa sem eru með börn á aldrinum 0-6 ára og vilja hitta aðra með lítil börn.

Boðið er upp samverur þar sem reglulega fer fram stutt íslenskukennsla fyrir foreldrana og fjölbreyttar kynningar. Leikföng fyrir börnin eru á staðnum og léttar veitingar eru í boði. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir hvort sem foreldrarnir tala enga eða einhverja íslensku.

Kópavogsdeildin óskar eftir góðu fólki til að sinna sjálfboðnum störfum í þessu verkefni. Markmið verkefnisins er að rjúfa félagslega einangrun innflytjenda sem eiga lítil börn. Áhugasamir eru vinsamlega beðnir um að hafa samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is.