Fjórði starfsmaður Kópavogsdeildar tekur til starfa

16. jan. 2009

Hrafnhildur Helgadóttir hefur hafið störf hjá Kópavogsdeildinni sem verkefnastjóri ungmenna- og alþjóðamála. Hrafnhildur mun sinna öflun upplýsinga og ráðgjöf í málefnum ungra innflytjenda sem og hafa umsjón með Eldhugum og Enter-starfinu. Þá mun hún sjá um samskipti og samvinnu við grunnskóla Kópavogs og Menntaskólann í Kópavogi.

Hrafnhildur er kennaramenntuð og stundar nú meistaranám í mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands. Hún hefur, auk kennslunnar, unnið ýmis störf tengd börnum og ungmennum eins og hjá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar og Barnheill. “Það er mér mikil ánægja að fá að takast á við ný og spennandi verkefni og taka þátt í því góða starfi sem unnið er hér í Kópavogsdeild Rauða krossins,” segir Hrafnhildur.

Fyrstu verk Hrafnhildar eru að kynna sér starf deildarinnar og undirbúa starf Eldhuga og Enter sem hefst á næstu vikum.