Ungur sjálfboðaliði styrkir Rauða krossinn

19. jan. 2009

Jóhannes Kristjánsson, 9 ára, hélt tombólu á dögunum og safnaði 1.200 krónum. Hann kom í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og afhenti þennan afrakstur tombólusölunnar. Framlag Jóhannesar rennur í sameiginlegan sjóð á landsvísu sem ráðstafað er einu sinni á ári í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.

Rauði krossinn metur mikils framtak sem þetta af hálfu yngstu sjálfboðaliða hreyfingarinnar. Þeir sem vilja afhenda Rauða krossinum afrakstur af fjársöfnun sinni geta komið í sjálfboðamiðstöðina alla virka daga á milli kl. 10-16.