Ýmis námskeið á döfinni hjá Kópavogsdeild – skráning hafin

26. jan. 2009

Deildin býður upp á fjölbreytt námskeið á næstunni fyrir sjálfboðaliða og almenning. Fyrst á dagskránni er námskeið fyrir nýja heimsóknavini sem verður haldið 9. febrúar. Námskeiðið er undirbúningsnámskeið fyrir þá sem vilja sinna heimsóknaþjónustu en hún miðar að því að rjúfa félagslega einangrun fólks.

Námskeið í skyndihjálp verður svo haldið 18. febrúar þar sem farið verður yfir grundvallaratriði í skyndihjálp og endurlífgun. Markmiðið er að þátttakendur verði hæfir til að veita fyrstu hjálp á slysstað.

Þá verður boðið upp á námskeið í sálrænum stuðningi 16. mars. Á námskeiðinu fræðast þátttakendur um gildi sálræns stuðnings í aðstæðum sem geta valdið áföllum en viðfangsefnin eru til dæmis mismunandi tegundir áfalla og áhrif alvarlegra atvika á einstaklinginn.

Námskeiðið Slys á börnum verður svo haldið 23. og 24. mars en á námskeiðinu er fjallað um varnir gegn slysum á börnum og orsakir slysa almennt, þroska barna og slys sem tengjast aldri. Þá er leiðbeint í skyndihjálp við barnaslysum og áverkum af ýmsu tagi.

Skráning er hafin á öll námskeiðin og fer skráningin fram hér á síðunni. Smellt er “Á döfinni” hér til hægri og svo á hvert námskeið fyrir sig. Frekari upplýsingar um námskeiðin eru undir hverjum hlekk fyrir sig.

Einnig má benda á grunnnámskeið Rauða krossins þar sem farið er yfir störf  hreyfingarinnar hér heima sem á alþjóðavettvangi og er ætlað sjálfboðaliðum og öðru áhugafólki um málefnið. Þau eru haldin reglulega og má einnig finna dagsetningar og frekari upplýsingar um þau undir “Á döfinni”.