Fatapakkar frá sjálfboðaliðum Kópavogsdeildar afhentir í Malaví

29. jan. 2009

Sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag prjóna og sauma ungbarnaföt fyrir börn í neyð í Malaví. Þó að Malaví sé vissulega á suðlægum slóðum getur sums staðar orðið kalt á kvöldin og á nóttunni, sérstaklega við fjalllendi. Sjálfboðaliðarnir pakka þessum ungbarnafötum reglulega í þar til gerða fatapakka en í hverjum slíkum pakka er prjónuð peysa, teppi, sokkar, bleyjubuxur og húfa auk handklæðis, taubleyja, treyja og buxna.

Á síðasta ári sendu sjálfboðaliðarnir frá sér 640 pakka og í nóvember síðastliðnum var þeim dreift, ásamt pökkum frá öðrum deildum, til mæðra með lítil börn í Chiradzulu-héraði í Malaví undir stjórn malavíska Rauða krossins. Ljósmyndari var á staðnum og myndaði dreifinguna á pökkunum.

Í hinu mánaðarlega prjónakaffi sem haldið var í sjálfboðamiðstöðinni í gær kom fulltrúi frá alþjóðasviði Rauða kross Íslands með myndirnar og sýndi sjálfboðaliðunum þær. Hann sagði þeim frá dreifingunni og viðbrögðum mæðranna við að fá pakkana. Þær voru hæstánægðar með að fá þessar góðu gjafir frá Íslandi og voru þakklátar fyrir stuðninginn.

Aida og Faris.

Aida var ein mæðranna sem fékk pakka fyrir son sinn Faris. Með stóru brosi sagði hún Rauða kross starfsmanni að hún væri mjög ánægð með pakkann sem hún fékk. Aida þénar um þrjá Bandaríkjadali á mánuði við garðvinnu en það myndi kosta hana heil mánaðarlaun að kaupa notaðan bol á markaðinum á staðnum.

Það er óhætt að segja að það hafi verið sjálfboðaliðunum í prjónahópi deildarinnar mikil hvatning að sjá myndirnar og heyra viðbrögðin við pökkunum sem þeir sendu frá sér. Þörfin er greinilega fyrir hendi og prjónahópurinn er staðráðinn í að halda áfram kraftmiklu starfi sínu og sinna þessari þörf.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu geta haft samband við Kópavogsdeild í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is. Það er einnig kærkomið fyrir deildina að fá garnafganga og tekið er á móti þeim á opnunartíma sjálfboðamiðstöðvarinnar alla virka daga frá kl. 10-16.   

Fleiri myndir frá dreifingunni má sjá með því að smella hér.