Handverksmarkaður Kópavogsdeildar á laugardaginn

2. apr. 2009

Hér er tækifæri til að verða sér úti um fallegt handverk, setja það jafnvel í afmælispakka eða gefa sem sængjurgjafir og styrkja um leið gott málefni!

Kópavogsdeild Rauða krossins heldur handverksmarkað laugardaginn 4. apríl kl. 11-16 í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11. Markaðurinn er lokaverkefni nemenda Menntaskólans í Kópavogi í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf. Einnig koma sjálfboðaliðar úr ýmsum öðrum verkefnum Kópavogsdeildar að markaðnum, ungir sem aldnir.

Selt verður fjölbreytt handverk sjálfboðaliða eins og fallegar prjónavörur, páskaskraut og sælgæti sem yngstu sjálfboðaliðarnir hafa búið til.

Helmingur afraksturs af markaðnum rennur til ungmennastarfs Rauða kross deildar í Mapútó-héraði í Mósambík en Kópavogsdeild er í vinadeildasamstarfi við þá deild. Hinn helmingurinn rennur til verkefnisins Föt sem framlag. Yfir 50 sjálfboðaliðar í því verkefni prjóna og sauma ungbarnaföt sem eru send börnum og fjölskyldum í neyð í Malaví.

Sjálfboðaliðar Rauða kross Íslands eru langflestir í verkefnum sem stuðla að auknum lífsgæðum Íslendinga sem búa við þrengingar og mótlæti. Með handverksmarkaðnum mun framtak þeirra einnig koma sér vel fyrir fólk í Mósambík og Malaví.