Spennt að fara í vinnuna

Þórdísi á Fréttablaðinu

7. apr. 2009

Stundum hefur verið sagt um hunda að þeir sér bestu vinir mannsins. Viðmót þeirra er fals- og fordómalaust en ávallt hlýtt og gefandi, enda vinsæll félagsskapur ungra sem aldinna, veikra sem frískra. Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag.

„Hún Karólína veit alveg hvað klukkan slær þegar ég set á hana rauða klútinn, því þá er hún að fara í vinnuna og verður afskaplega ánægð með tilheyrandi væli fagnaðar og spennings þegar við beygjum upp að Sunnuhlíð,” segir Guðleifur Magnússon, bókbindari og heimsóknarvinur Kópavogsdeildar Rauða krossins, sem fer með tík sína Karólínu í heimsóknir á hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð.

„Ég þurfti að finna mér eitthvað til dundurs þegar ég missti heilsuna síðsumars 2006, en skömmu síðar fór verkefnið af stað hjá Rauða krossinum. Í kjölfarið fór ég með Karólínu í úttekt til Brynju Tomer hjá VÍS, en hún tekur hundana til kostanna, athugar geðslag þeirra og taugar, með því að bregða þeim og fara með þá í lyftu, og prófið stóðst hundurinn minn ágætlega," segir Guðleifur sem síðan hefur farið í félagi við Karólínu á milli deilda Sunnuhlíðar til að heilsa upp á heimilisfólkið. „Það er afskaplega gefandi því fólkið er farið að þekkja okkur og tekur komu okkar fagnandi. Það lifnar yfir fólkinu, margir vilja klappa tíkinni og sumir gefa henni hundanammi til að fá að launum kúnstir, eins og handaband og setur.”

Þau Guðleifur og Karólína fara einnig á fund barna af ýmsu þjóðerni þegar þau koma saman hjá Kópavogsdeild Rauða krossins í Hamraborg. „Þær heimsóknir vekja heilmikla lukku og virðast gefa krökkunum mikið. Karólína er skemmtileg og brýtur upp dag barnanna sem flest glíma enn við tungumálaörðugleika en finna í hundinum málleysingja sem þau geta gefið sig að, klappað og knúsað,” segir Guðleifur og bætir við að heimsóknarvinnan sé gefandi fyrir alla sem að henni koma.

„Margir í Sunnuhlíð eru af gömlu bændakynslóðinni og segja mér frá hundum sínum í sveitinni forðum, en það virðist gefa þeim mikið að endurnýja kynnin við besta vin mannsins. Félagsskapur Karólínu er ómetanlegur og henni fylgir andleg upplyfting líka, því hún kemur alltaf og minnir á sig, án þess að vera frek eða krefjandi. Mín vegna mætti útfæra heimsóknarvináttuna enn meira og ég vildi gjarnan fara til fleira fólks með Karólínu. Það er svo ljúft að fara út á meðal fólks, láta gott af sér leiða og njóta þess í leiðinni.”

[email protected]