Enter tekur þátt í Kópavogsdögum

16. apr. 2009

Enterhópurinn hóf í gær undirbúning að þátttöku á Kópavogsdögum sem haldnir verða 9.-13. maí. Hópurinn vann dúkkulísur sem eiga að túlka þau sjálf en þær verða hengdar upp til sýnis á bæjarskrifstofu Kópavogsbæjar. Markmið sýningarinnar er að vekja athygli á ólíkum bakgrunni Kópavogsbúa en börnin í Enter eru af fjölbreyttum uppruna.  Þau koma meðal annars frá Dóminíska lýðveldinu, Sri Lanka, Póllandi, Portúgal, Litháen og Tælandi. Öll eiga þau þó það sameiginlegt að búa í Kópavogi og ganga í Hjallaskóla.  Líkt og myndirnar sýna skein einbeiting úr andlitum barnanna við vinnuna og útkoman var fjölbreytt og skemmtileg.

Enter er starf með ungum innflytjendum 9-12 ára sem felur í sér málörvun og tómstundastarf fyrir nemendur í móttökudeild fyrir nýbúa í Hjallaskóla. Á miðvikudögum kl. 14.00-15.30 koma nemendurnir í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar þar sem þeir fá málörvun í gegnum fjölbreytta fræðslu og leiki sem og upplýsingar um félagsstarf og menningu á höfuðborgarsvæðinu í gegnum kynningar og vettvangsferðir. Markmið verkefnisins er að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í starfinu sem sjálfboðaliðar geta haft samband við deildina í síma 554 6626 eða á [email protected].