Virkja ber þann mikla kraft sem býr í fólki og gefa því tækifæri til að gefa af sér, sjálfum sér og öðrum til ánægju.

Garðar H. Guðjónsson og Lindu Ósk Sigurðardóttur

27. apr. 2009

KOLLSTEYPAN sem orðið hefur í efnahagslífi þjóðarinnar á undanförnu misseri hefur breytt lífi margra. Þegar fólk missir vinnuna eða þarf að minnka verulega við sig vinnu er hætta á að það einangrist og upplifi aðgerðaleysi og vanmátt.

Kópavogsdeild Rauða krossins er viðbragðsaðili í neyð og strax í upphafi efnahagshrunsins hóf deildin að skipuleggja starf sitt vegna neyðaraðstoðar til einstaklinga og fjölskyldna. Deildin stóð ásamt Mæðrastyrksnefnd Kópavogs að neyðaraðstoð fyrir jólin og tók þátt í að byggja upp verkefnið Hönd í hönd í samvinnu við Kópavogsbæ, kirkjuna, heilsugæsluna, lögreglu og fleiri. Kópavogsdeild er einnig aðili að Rauðakrosshúsinu í Borgartúni 25 og tók drjúgan þátt í undirbúningi þess. Þar er meðal annars unnt að fá sálrænan stuðning og fjölbreytta fræðslu.

Í byrjun mars fór Kópavogsdeild svo af stað með verkefni sem ber yfirskriftina Nýttu tímann – námskeið – fyrirlestrar – samverur, og er það ætlað þeim sem misst hafa vinnuna, hafa þurft að minnka við sig vinnu eða hafa nægan tíma af öðrum ástæðum. Tilgangurinn er að skapa jákvæðar aðstæður fyrir fólk, rjúfa einsemd og félagslega einangrun, hvetja fólk til að nýta þekkingu sína og reynslu til að halda áfram að vaxa og dafna, auk þess að auka fjölbreytni í verkefnum sjálfboðaliða. Eitt af áhersluverkefnum Kópavogsdeildar Rauða krossins er einmitt að vinna gegn einsemd og félagslegri einangrun.

Áhersla var lögð á að fá leiðbeinendur úr röðum sjálfboðaliða deildarinnar og atvinnulausra. Margir þeirra sem misst hafa vinnuna síðustu mánuði búa yfir þekkingu og færni sem öðrum getur þótt áhugaverð og gagnleg. Virkja ber þann mikla kraft sem býr í fólki og gefa því tækifæri til að gefa af sér, sjálfu sér og öðrum til ánægju. Nú þegar er búið að halda fjölmörg námskeið og hefur þátttaka verið góð. Á komandi vikum er síðan fyrirhugað að halda margvísleg námskeið og er enn hægt að skrá sig til þátttöku. Boðið er upp á léttar veitingar og fólki gefst tækifæri til að sitja og spjalla saman. Verkefnið er nú unnið í samvinnu við bæjaryfirvöld í Kópavogi og með ríflegum stuðningi bæjarins. Námskeiðin eru haldin á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum klukkan tíu til eitt í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar.

Nýttu tímann er eitt af fjölmörgum verkefnum sem Rauði krossinn hefur komið á fót til að bregðast við breyttum aðstæðum. Við hvetjum alla sem gætu haft gagn af verkefninu til að nýta það sér að kostnaðarlausu.

Garðar á sæti í stjórn Rauða kross Íslands og er formaður Kópavogsdeildar. Linda er framkvæmdastjóri Kópavogsdeildar.