Tveir starfsmenn kvaddir í Dvöl

5. maí 2009

Selma Þórðardóttir og Sigurbjörg Lundholm, leiðbeinendur í Dvöl, sögðu skilið við athvarfið á dögunum en báðar höfðu starfað þar frá opnun þess fyrir tíu árum síðan. Þær voru kvaddar af gestum athvarfsins og öðru starfsfólki með góðri samveru í Dvöl. Þá voru þær leystar út með gjöfum og kærum þökkum fyrir vel unnin störf. Dvöl er samstarfsverkefni Kópavogsdeildar, Kópavogsbæjar og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi. Selma og Sigurbjörg unnu báðar fyrir svæðisskrifstofuna.

Markmiðið með starfsemi Dvalar er að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem glíma við geðraskanir. Gestir koma í athvarfið á eigin forsendum eða með stuðningi annarra og njóta þeirrar þjónustu sem í boði er. Áhersla er lögð á að efla sjálfstæði og virkni gestanna, en jafnhliða eru gestir aðstoðaðir við að leita nýrra leiða, sé þess óskað.
 

Frekari upplýsingar um Dvöl má fá með því að smella hér.