Verkefnið Nýttu tímann hefur fengið góðar viðtökur

7. maí 2009

Verkefnið Nýttu tímann fór af stað hjá deildinni í byrjun mars og hafa viðtökurnar verið vonum framar. Fjöldi fólks hefur nýtt sér ókeypis námskeið og fyrirlestra sem hafa verið í boði tvo til þrjá daga í hverri viku síðan verkefnið hófst. Boðið hefur verið upp á námskeið í til dæmis fatasaumi, ræktun kryddjurta, skapandi skrifum og nýsköpun. Þátttakendur hafa almennt verið ánægðir með viðburðina og framtakið í heild sinni.

Leiðbeinendur hafa gefið vinnu sína og í lok hvers viðburðar hefur verið boðið upp á léttan hádegisverð. Síðustu viðburðirnir verða í næstu viku en á mánudag verður ljósmyndakennsla, námskeið um gerð viðskiptaáætlana á þriðjudag og kennsla á GPS-tæki á miðvikudag. Enn er hægt að skrá sig á þessa viðburði með því að smella hér.

Verkefninu er fyrst og fremst ætlað að koma til móts við atvinnulausa og þá sem hafa þurft að minnka við sig vinnu. Viðburðirnir og námskeiðin eru þó opin öllum og eru án endurgjalds. Verkefnið er unnið í samvinnu við Kópavogsbæ.