Alþjóðadagur Rauða krossins 8. maí

8. maí 2009

Sjálfboðaliðar, félagar og starfsmenn Rauða krossins og Rauða hálfmánans fagna því að í dag er alþjóðadagur hreyfingarinnar. Dagurinn er fæðingardagur stofnanda hennar, Henry Dunants, og er fyrst og fremst helgaður öllum þeim sjálfboðaliðum sem vinna fyrir Rauða krossinn og Rauða hálfmánann um heim allan. Sjálfboðaliðarnir starfa að ólíkum verkefnum en þó alltaf með sömu markmið og hugsjónir að leiðarljósi.

Hreyfingin spratt upp af löngun til að veita þeim sem særst höfðu á orrustuvelli hjálp án manngreinarálits og reynir með alþjóðlegu starfi og starfi landsfélaga, eins og Rauða krossi Íslands, að koma í veg fyrir og létta þjáningar fólks hvar sem það er statt. Tilgangur hreyfingarinnar er að vernda líf og heilsu og tryggja virðingu fyrir mannlegu lífi. Hún vinnur að gagnkvæmum skilningi, vináttu, samstarfi og varanlegum friði meðal allra þjóða.

Kópavogsdeildin sendir félögum sínum í Rauða krossinum bestu kveðjur í tilefni af þessum degi og óskar þeim farsældar í starfi.