Við erum Kópavogsbúar

11. maí 2009

Sýning á dúkkulísum sem Enter-hópurinn vann fyrir skemmstu er nú til sýnis í anddyri Þjónustuskrifstofu Kópavogsbæjar. Tilefnið er Kópavogsdagar og markmið sýningarinnar er að vekja athygli á ólíkum bakgrunni Kópavogsbúa í samfélagi sem verður sífellt alþjóðlegra. Dúkkulísurnar túlka börnin sjálf en börnin í Enter eru af fjölbreyttum uppruna.

Í Enter eru ungir innflytjendur á aldrinum 9-12 ára. Verkefnið er unnið í samvinnu við mótttökudeild nýbúa í Hjallaskóla og hófst árið 2004. Börnin koma einu sinni í viku eftir skóla í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og fá meðal annars málörvun og fræðslu um tómstundastarf í Kópavogi í gegnum fjölbreytta leiki og vettvangsferðir. Markmið verkefnisins er að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því. Verkefnið er hugsað sem eins konar samfélagsfræðsla sem börnin og sjálfboðaliðar geta haft gagn og gaman af. Enter-hópurinn hittist alla miðvikudaga kl. 14.00-15.30.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í starfinu sem sjálfboðaliðar geta haft samband við deildina í síma 554 6626 eða á kopavogur@redcross.is. Verkefni sjálfboðaliða fela í sér að skipuleggja og stýra ungu fólki í spennandi viðfangsefnum. Það er undir sjálfboðaliðum komið hversu mikið af tíma sínum þeir gefa í verkefni, hvort sem það er í hverri viku, aðra hvora viku eða sjaldnar. Verkefnið býður upp á einstakt tækifæri til að láta gott af sér leiða og öðlast dýrmæta reynslu.