Yfir hundrað þátttakendur í verkefninu Nýttu tímann

20. maí 2009

Kópavogsdeild Rauða krossins hratt af stað verkefninu Nýttu tímann í byrjun mars með ókeypis námskeiðum, fyrirlestrum og samverum. Síðasta námskeiðinu lauk núna í vikunni en alls voru þátttakendur á viðburðunum yfir hundrað talsins. Viðburðirnir voru 19 talsins, haldnir á 27 dögum, og 16 sjálfboðaliðar gáfu vinnu sína, sem leiðbeinendur eða með því að veita annars konar aðstoð.

Verkefninu var ætlað að ná til fólks í atvinnuleit og þeirra sem hafa þurft að minnka við sig vinnu með því að skapa þeim aðstæður til að bæta við þekkingu sína. Þá var markmiðið einnig að hvetja fólk til að nýta þekkingu sína og reynslu og halda áfram að dafna og vaxa þrátt fyrir tímabundinn atvinnumissi á erfiðum tímum en sumir leiðbeinandanna voru án atvinnu.

Verkefnið var unnið í samvinnu við Kópavogsbæ og kynnt sérstaklega hjá félagsþjónustunni í bænum en einnig hjá Vinnumálastofnun, á heilsugæslustöðvum, í kirkjusóknum og í Rauðakrosshúsinu.

Boðið var upp á alls konar námskeið eins og fatasaum, skapandi skrif, ræktun kryddjurta, fjármálalæsi og ljósmyndun. Þá voru fyrirlestrar um heilsufar og matarræði, nýsköpun og óhagganleg lögmál markaðarins svo eitthvað sé nefnt.

Það er einlæg ósk deildarinnar að viðburðirnir hafi verið þátttakendunum gagnlegir og hún færir öllum þeim sem gáfu vinnu sína bestu þakkir.