Ný umhverfisstefna Rauða kross Íslands til að draga úr loftslagsbreytingum

16. maí 2009

Ný umhverfisstefna Rauða kross Íslands var samþykkt á aðalfundi félagsins sem haldinn var í Vík í Mýrdal í dag. Rauði kross Íslands er þar með fyrsta af 186 landsfélögum Rauðakrosshreyfingarinnar að marka sér formlega stefnu til að leggja sitt að mörkum til að draga úr loftslagsbreytingum í heiminum. 

Í umhverfisstefnu Rauða krossins er kveðið á um að starfsemi Rauða krossins verði þannig að hún valdi sem minnstri mengun og álagi á auðlindir og umhverfi. Skref í þá átt eru að:
minnka úrgang með markvissari notkun upplýsingatækni, minni notkun á pappír og einnota vörum.
auka endurvinnslu með skilum á flokkuðum úrgangi og spilliefnum.
stunda umhverfisvæn innkaup á rekstrarvörum og við endurnýjun búnaðar.
minnka orkunotkun, huga að umhverfisvænum samgöngum og fundum og draga úr losun koltvísýrings (þar verði horft til bílaflota félagsins). 

Rauði kross Íslands mun jafnframt vekja athygli á neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga á hin fátækari ríki heims og hvetja stjórnvöld til að virða alþjóðlegar skuldbindingar í umhverfis- og loftlagsmálum. 

Áhrif loftslagsbreytinga á lífsskilyrði fólks í heiminum er eitt mikilvægasta viðfangsefni Rauðakrosshreyfingarinnar næstu áratugi.  Loftslagsbreytingar munu hafa í för með sér öfgakennd veðurskilyrði og óreglulegt tíðarfar sem aftur muni leiða af sér fleiri náttúruhamfarir.

„Hundruðum milljóna manna stafar ógn af aukinni tíðni hamfara. Sem fyrr munu fátæk samfélög bera mestan skaða. Rauði krossinn um allan heim gegnir mikilvægu hlutverki í neyðarviðbúnaði og neyðarviðbrögðum,” sagði Anna Stefánsdóttir, formaður Rauða kross Íslands. “Sem hluti af alheimshreyfingu hefur Rauði krossinn ásamt öðrum landsfélögum hreyfingarinnar sömu ábyrgð og skyldur til gagnkvæmrar hjálpar.”

Efnahagsþrengingarnar voru eitt aðalviðfangsefni aðalfundarins.  Kynntur var fjöldi nýrra verkefna sem öll tengjast viðbrögðum félagsins við efnahagskreppunni, sérstaklega sem lúta að sálrænum stuðningi og vettvangi til að halda fólki virku í samfélaginu á þessum erfiðu tímum.

Þá voru eftirfarandi kosnir í  stjórn: Halldór U. Snjólaugsson, formaður Fáskrúðsfjarðar-deildar, Jón Þorsteinn Sigurðsson, stjórnarmaður Skagafjarðardeildar, Sólveig Reynisdóttir, stjórnarmaður Akranesdeildar, og Stefán Yngvason, formaður Reykjavíkurdeildar.  Þá var Einar Sigurðsson endurkjörinn í stjórn til næstu tveggja ára 

Um tvö hundruð fulltrúar frá 43 deildum af 50 sóttu aðalfundinn.