Fatapökkun hjá sjálfboðaliðum í verkefninu Föt sem framlag

28. maí 2009

Sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag komu saman í sjálfboðamiðstöðinni á dögunum. Tilefnið var fatapökkun þar sem sjálfboðaliðarnir pökkuðu handavinnu sinni í svokallaða ungbarnapakka. Alls var pakkað 229 pökkum að þessu sinni og verða þeir sendir til barna og fjölskyldna í neyð í Malaví. Sjálfboðaliðarnir hafa pakkað alls 412 pökkum á þessu ári.

Hver pakki inniheldur eina peysu, eitt teppi, eitt handklæði, tvær samfellur, tvær taubleyjur, tvö stykki, einar buxur, einar bleyjubuxur, eina húfu, eina treyju og tvö sokkapör. Sjálfboðaliðarnir prjóna, hekla eða sauma peysurnar, teppin, húfurnar, sokkana, bleyjubuxurnar og jafnvel buxurnar en það sem upp á vantar er gjarnan fengið notað hjá Fatasöfnunarstöð Rauða krossins.

Fötunum er pakkað í sérútbúna poka en á þeim eru myndir af innihaldi pokans.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu geta haft samband við Kópavogsdeild í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is. Það er einnig kærkomið fyrir deildina að fá garnafganga og tekið er á móti þeim á opnunartíma sjálfboðamiðstöðvarinnar alla virka daga frá kl. 10-16.