Hlustum á börnin – átaksvika Hjálparsíma Rauða krossins 1717

29. maí 2009

Hlutleysi – Skilningur – Trúnaður - Nafnleysi

Hjálparsími Rauða krossins 1717 stendur fyrir átaki vikuna 31. maí til 6. júní undir yfirskriftinni Hlustum á börnin. Með átaksvikunni vill Hjálparsíminn 1717 minna fólk á að vera vakandi yfir líðan barna á erfiðum tímum og einnig upplýsa börn og unglinga um að þau geti fengið ráðgjöf og upplýsingar um úrræði sem standa þeim til boða með því að hringja í 1717.

Fjölmargar rannsóknir sýna fram á að þunglyndi, sinnuleysi og kvíði foreldra færist yfir á börn þeirra. Við þær aðstæður eru foreldrar í minna mæli í stakk búin til þess að veita börnum sínum öryggi, hlýju og athygli. Börn elska foreldra sína og þurfa að fá staðfestingu á að þeir hafi tíma fyrir þau og hlusti á þau. Það sem börn þrá framar öllu er samvera við sína nánustu.

Mörg börn búa nú við þann veruleika að foreldrar þeirra hafa misst vinnuna eða hafa miklar fjárhagsáhyggjur. Við erfiðar aðstæður eykst hættan á að börn verði fyrir ofbeldi eða verði vitni að því. Þriðjungur þeirra tilkynninga sem berast Barnavernd Reykjavíkur um þessar mundir varða vanrækslu og ofbeldi gagnvart börnum.
Þegar heimilislífið einkennist af reiði, biturð, hræðslu, ofbeldi og hörku loka börn sig gjarnan af.  Þau verða einmana og ráðvillt og líkamlegir kvillar gera vart við sig. Langvarandi ofbeldi brýtur niður sjálfstraust og getur leitt til alvarlegra geðsjúkdóma. Því þarf fólk í umhverfinu að vera vakandi fyrir aðstæðum barna og styðja við bakið á þeim.

Lykilatriði í sterkri sjálfsmynd barna er jákvætt uppeldi, örvun, umhyggja og samverustundir með foreldrum sem eru þeim góðar fyrirmyndir. Að virða og hlúa að börnum er ekki einungis aðgöngumiði að góðu samfélagi heldur forsenda góðrar heilsu þeirra á fullorðinsárum.

Hjálparsími Rauða krossins 1717 er opinn allan sólahringinn fyrir þá sem vilja ræða sín hjartans mál í trúnaði og einlægni við hlutlausan aðila. Númerið er gjaldfrjálst og það birtist ekki á símareikningnum að hringt hafi verið í 1717.  Um 100 sjálfboðaliðar Rauða krossins starfa við Hjálparsímann 1717, og hafa fengið sérstaka þjálfun og fræðslu til að hlusta á þá sem hringja og veita upplýsingar um leiðir út úr ýmsum vanda. 

Hjálparsíminn 1717 efnir til viku átaks tvisvar á ári þar sem vakin er athygli á sérstökum málaflokkum.

Ítarefni um Hjálparsímann