Sjálfboðaliðar óskast til að aðstoða á námskeiði

3. jún. 2009

Kópavogsdeildin verður með ókeypis námskeið fyrir börn á aldrinum 7-12 ára 22.-26. júní næstkomandi kl. 9-16 alla dagana og kallast það Gleðidagar. Námskeiðið tengir saman eldri og yngri kynslóðir þar sem markmiðið er að miðla gömlum gildum og þekkingu frá hinum eldri til hinna yngri.

Leiðbeinendur á námskeiðinu verða að mestu eldri borgarar en deildin óskar eftir yngri sjálfboðaliðum til að aðstoða við námskeiðshaldið, t.d. við hádegismat, leiki og almenna dagskrá. Við óskum eftir fjórum sjálfboðaliðum á dag, tveimur frá kl. 9-13 og tveimur frá kl. 13-16.30. Áhugasamir eru vinsamlega beðnir um að hafa samband við deildina í síma 554 6626 eða á kopavogur@redcross.is.

Dagskrá námskeiðsins samanstendur af bæði inni- og útileikjum ásamt ýmiss konar kennslu er varða til dæmis spil, prjón, hekl, tálgun, leiki, söng og sögu.