Viltu tala meiri íslensku?

12. jún. 2009

Verkefnið Viltu tala meiri íslensku? er hluti af heimsóknaþjónustu deildarinnar og hefur verið í gangi síðan í janúar síðastliðnum. Íslenskir sjálfboðaliðar hafa vikulega hitt innflytjendur sem vilja æfa sig í að tala íslensku. Á samverunum fá innflytjendurnir tækifæri til að tala íslensku og þjálfa sig því í notkun málsins.

Alls hafa níu manns nýtt sér þessa þjónustu og sjálfboðaliðarnir hafa verið fjórir. Þátttakendurnir hafa verið frá Póllandi, Ítalíu, Ástralíu, Tíbet, Sri Lanka og Eþíópíu og kunna sumir litla íslensku en aðrir hafa meiri kunnáttu.

Síðasta samveran í bili var í þessari viku en svo mun verkefnið byrja aftur í haust. Þeir sem hafa áhuga á að nýta sér þjónustuna eða gerast sjálfboðaliðar eru vinsamlega beðnir um að hafa samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is