Selir, tröllskessa og bilaðar bremsur

15. jún. 2009

Strandakirkja, selir og víkingaskip voru á meðal þess sem varð á vegi gesta og starfsmanna Dvalar sem fóru í dagsferð á Reykjanes á miðvikudaginn í síðustu viku. Strandakirkja var fyrsti áfangastaðurinn en eftir skoðunarferð um kirkjuna voru borðaðar dýrindis samlokur og skyr, auk þess sem heitt kaffi og kakó var á boðstólnum. Nokkrir úr hópnum gengu upp á hæð þar sem sást yfir fjöruna en þar mátti sjá stærðarinnar seli sem svömluðu um í sjónum og sátu á skerjunum.

Saltfisksetrið í Grindavík var næst á döfinni en þar kynnti fólk sér saltfiskvinnslu og viðskipti fyrr og nú. Í Duushúsi í Keflavík var borðuð súpa og brauð auk þess sem sumir skokkuðu út að helli við höfnina til að skoða tröllskessu sem þar býr.
 
Víkingaheimar í Reykjanesbæ var næsti áfangastaður en þar er verið að opna heljarinnar víkingasafn þar sem meðal annars má sjá víkingaskipið Íslending. Safnið verður ekki opnað fyrr en 17. júní en forstöðumenn safnsins voru svo vingjarnlegir að leyfa hópnum að skoða það.

Áhugasamur hópur að skoða Íslending.

Eftir þetta var haldið heim á leið en ævintýrin voru þó ekki búin. Þegar rútan var um það bil að renna inn í Hafnarfjörð læstust bremsur á henni og hún varð óökufær. Bílstjórinn náði þó að stöðva rútuna úti í kanti en ferðalangarnir létu töfina ekkert á sig fá og flestir lögðust í sólbað. Um hálftíma síðar kom önnur rúta og sótti mannskapinn og fór með alla aftur í Dvöl, þreytta en káta.