Hundaheimsókn á Grund

18. jún. 2009

Heimsóknavinur með hund hóf að heimsækja heimilisfólk á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Grund í vikunni. Heimsóknavinurinn María fór með hundinn sinn Check og heimsótti tvær deildir á Grund við góðar undirtektir fólksins þar. Sumir létu sér nægja að fylgjast með hundinum en aðrir klöppuðu honum, héldu á honum og gáfu honum meira að segja nokkra kleinubita. María og Check munu framvegis heimsækja Grund reglulega.

Kópavogsdeildin hefur boðið upp á heimsóknir með hunda í nokkur ár núna. Heimsóknavinir heimsækja með hundana sína á heilbrigðisstofnanir eins og hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð og Rjóðrið, hvíldarinnlögn fyrir langveik börn, en einnig á einkaheimili þar sem fólk er einmana og félagslega einangrað. Þær stofnanir sem fá til sín hunda hafa allar fengið sérstakar undanþágur frá heilbrigðisyfirvöldum.

Heimsóknavinir sem heimsækja með hundana sína þurfa að sitja sérstakt námskeið fyrir heimsóknavini hjá Rauða krossinum og hundarnir fara í atferlisskoðun áður en heimsóknirnar hefjast. Þá er meðal annars farið með hundana í ókunnugt umhverfi og fylgst með því hvernig þeir koma fram við ókunnuga.

Þeir sem hafa áhuga á að gerast heimsóknavinur með hund eða fá til sín hund í heimsókn geta haft samband við Kópavogsdeild í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is.