Námskeiðið Gleðidagar stendur nú yfir í sjálfboðamiðstöðinni

22. jún. 2009

Rétt í þessu var námskeiðið Gleðidagar að hefjast í sjálfboðamiðstöð deildarinnar. Nítján börn á aldrinum 7-12 ára eru mætt og munu njóta leiðsagnar fram á föstudag. Námskeiðið hefur yfirskriftina Ungur nemur, gamall temur og eru leiðbeinendur að mestu eldri borgarar. Hugmyndin er að tengja saman eldri og yngri kynslóðir þar sem markmiðið er að miðla gömlum gildum og þekkingu frá hinum eldri til hinna yngri.

Dagskrá vikunnar samanstendur af bæði inni- og útileikjum ásamt ýmis konar kennslu er varða til dæmis spil, prjón, hekl, tálgun, leiki, söng og sögu. Í dag er til dæmis á döfinni leikir með dansi, leikræn tjáning, tafl, hnútabinding og prjón.

Námskeiðið er samvinna Rauða kross Íslands, Öldrunarráðs Íslands og Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands en alls verða fimm námskeið haldin í júní og júlí á höfuðborgarsvæðinu. Námskeiðin eru þátttakendunum að kostnaðarlausu.