Lögreglan og Rauði krossinn gera samkomulag um sálrænan stuðning

24. jún. 2009

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, og Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, undirrituðu í dag samkomulag um sálrænan stuðning við fólk sem komið hefur að vettvangi alvarlegra atburða þar sem kallað er eftir aðstoð lögreglunnar.

Lögreglan mun afhenda þeim sem koma að eða verða vitni að alvarlegum atburðum handhæg kort með upplýsingum um þau áhrif sem atvikið getur haft á líðan viðkomandi.  Á kortinu er fólki bent á að full ástæða geti verið til að viðra reynslu sína við góðan vin eða sjálfboðaliða Hjálparsíma Rauða krossins 1717, en hann er gjaldfrjáls og  opinn allan sólarhringinn.  Allir sjálfboðaliðar Hjálparsímans 1717 eru sérstaklega þjálfaðir til að veita sálrænan stuðning.

Samkomulagið er gert til að aðstoða fjölda venjulegra borgara sem koma að eða verða vitni að alvarlegum atburðum.  Áður en lögregla eða slökkvilið koma á vettvang hefur venjulegt fólk iðulega lagt sig fram um að sinna bráðaaðgerðum til bjargar lífi og heilsu þeirra sem orðið hafa fyrir áfalli.  Meta ber framlag þeirra að verðleikum og er mikilvægt að gera sér grein fyrir að þátttaka í atburðum af þessu tagi getur haft áhrif á andlega líðan viðkomandi í bráð og lengd.

“Með þessu samstarfsverkefni náum við til mikilvægs hóps því margir sem verða vitni að alvarlegum atvikum geta lengi glímt við afleiðingar reynslu sinnar.  Þannig getum við nýtt þann farveg sem Hjálparsíminn 1717 er til að aðstoða þetta fólk með hjálp lögreglunnar,” sagði Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða krossins við undirritunina.

Stefán Eiríksson lögreglustjóri sagði lögregluna vera í daglegri snertingu við íbúa á höfuðborgarsvæðinu sem upplifa oft erfiða atburði.

“Þá er gott að geta haft svona einfaldan hlut eins og þetta kort sem aðstoðar fólk við að leita sér viðeigandi hjálpar,” sagði Stefán.

Um sambærilegan samning er að ræða eins og undirritaður var með Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku.