Vel heppnaðir Gleðidagar

29. jún. 2009

Námskeiðið Gleðidagar sem haldið var hjá deildinni í síðustu viku heppnaðist afar vel en um er að ræða tilraunaverkefni í því skyni að tengja saman eldri og yngri kynslóðir þar sem markmiðið er að miðla gömlum gildum og þekkingu frá hinum eldri til þeirra yngri. Nítján börn á aldrinum 7-12 ára sóttu námskeiðið og boðið var upp á fjölbreytta dagskrá alla vikuna. Eldri borgarar sögðu börnunum meðal annars sögur og fræddu þau um gamla tímann, þá var börnunum leiðbeint varðandi leikræna tjáningu og kennt að binda hnúta. Auk þess sáu tveir sjálfboðaliðar deildarinnar um að kenna prjón.

Börnin fóru einnig í leiki, inni og úti, spiluðu á spil og sungu saman. Þau heimsóttu Náttúrugripasafnið í Kópavogi, hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð og Fjölsmiðjuna. Í Sunnuhlíð nutu þau leiðsagnar Ásgeirs Jóhannessonar, fyrrum formanns Kópavogsdeildar, og sagði hann þeim meðal annars frá uppbyggingu hjúkrunarheimilisins, starfseminni og samstarfinu við Kópavogsdeildina. Þá snæddu börnin hádegismat með heimilisfólkinu.

Guðrún, sjálfboðaliði deildarinnir í verkefninu Föt sem framlag, kenndi prjón.

Námskeiðið var þátttakendunum að kostnaðarlausu og flestir leiðbeinendurnir voru eldri borgarar en sjálfboðaliðar deildarinnar voru einnig til aðstoðar. Verkefnið er skipulagt af Rauða krossi Íslands í samvinnu við Öldrunarráð Íslands og Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands. Alls verða fimm námskeið haldin á höfuðborgarsvæðinu og Akranesi í júní og júlí.  

Börnin voru áhugasöm um hnútabindingar hjá Jóhannesi.