Grillað í Dvöl

2. júl. 2009

Alls mættu um fimmtíu manns í grillveislu Dvalar sem haldin var í blíðskaparveðri þann 1. júlí.  Gestir og starfsmenn frá Vin og Læk, athvörfum Rauða krossins mættu í veisluna með hamborgara og pylsur á grillð og áttu góðan dag með félögum sínum í Dvöl. Þá spilaði einn gestanna á harmonikku, annar á munnhörpu og sá þriðji á gítar við góðar undirtektir veislugesta.

Markmiðið með starfsemi Dvalar er að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við geðsjúkdóma er að stríða. Gestir koma í athvarfið á eigin forsendum eða með stuðningi annarra og njóta þeirrar þjónustu sem í boði er. Áhersla er lögð á að efla sjálfstæði og virkni gestanna, en jafnhliða eru gestir aðstoðaðir við að leita nýrra leiða, sé þess óskað. Dvöl er athvarf en ekki meðferðarstofnun þar sem gestir og aðstandendur geta fengið góð ráð hjá starfsmönnum ef þeir óska þess.

Dvöl er staðsett í fallegu umhverfi við Reynihvamm 43 í Kópavogi. Á veturna er opið kl. 9-16 virka daga (10-16 á fimmtudögum) og kl. 11-14 á laugardögum. Á sumrin er opið (júní-ágúst) virka daga kl. 9-15.  Nánari upplýsingar um Dvöl má finna hér.

Rauði krossinn rekur eða kemur að rekstri átta athvarfa fyrir fólk með geðraskanir víða um landið, þrjú þeirra eru á höfuðborgarsvæðinu.