Heimsóknavinir gegn einsemd og einangrun, sjálfboðaliðar óskast

11. ágú. 2009

Heimsóknir sjálfboðaliða til fólks sem býr við einsemd og félagslega einangrun eru umfangsmesta verkefni sjálfboðaliða á vegum Kópavogsdeildar og eitt af áhersluverkefnum deildarinnar og Rauða kross Íslands. Deildin setti fram áætlun haustið 2006 um að efla og auka heimsóknaþjónustu sína verulega á árunum 2007-2009 og árið 2008 tóku alls um 120 sjálfboðaliðar þátt í þessu verkefni. Eftirspurnin eftir heimsóknum hefur aukist jafnt og þétt og heimsóknavinir á vegum deildarinnar sinna verkefnum á ýmsum stöðum í Kópavogi. Nú viljum við bæta enn í hóp heimsóknavina og flestir ættu að geta fundið verkefni við hæfi.

Heimsóknavinir sjá um samverur á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð eins og söngstundir og upplestur. Heimsóknavinir veita líka félagsskap á sambýlum aldraðra; í Gullsmára, Roðasölum og við Skjólbraut. Þeir heimsækja langveik börn í Rjóðrinu og fólk með geðraskanir í athvarfinu Dvöl ásamt því að hitta innflytjendur sem vilja læra meiri íslensku og aðlagast betur íslensku samfélagi. Stærsti hluti heimsóknavinanna heimsækir þó fólk á einkaheimilum þar sem samverustundirnar eru af ýmsum toga. Auk þess má geta að rúmlega tíu sjálfboðaliðar heimsækja með hundana sína en Kópavogsdeildin var fyrst deilda innan Rauða krossins til að hefja notkun hunda í heimsóknaþjónustu. Flestir heimsóknavinir starfa í hverri viku, klukkustund í senn. Þeir sem hafa áhuga að fá heimsókn til sín er bent á að hafa samband við deildina.

Þeir sem vilja bætast í hóp heimsóknavinanna þurfa að fara á sérstakt undirbúningsnámskeið þar sem er meðal annars farið yfir verkefnið og hlutverk heimsóknavina. Næsta námskeið hjá Kópavogsdeildinni verður haldið 1. september kl. 18 í sjálfboðamiðstöð deildarinnar. Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig en það má gera með því að smella hér. Einnig er hægt að skrá sig og fá frekari upplýsingar í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected]