Ungir sjálfboðaliðar í Kópavogi taka á móti ungum sjálfboðaliðum frá Palestínu

20. ágú. 2009

Um þessar mundir eru tveir ungir sjálfboðaliðar frá Rauða hálfmánanum í Palestínu staddir á Íslandi í boði Rauða kross Íslands og í gær komu þeir í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar þar sem sjálfboðaliðar í ungmennastarfi deildarinnar, Plúsnum, tóku á móti þeim. Ungmennin frá Palestínu dvelja á landinu í þrjár vikur til að kynna sér starfsemi Rauða krossins en næstu dagana munu sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar sjá um dagskrána þeirra. Hún hljóðar meðal annars upp á kynningu á deildinni, hestaferð í boði Íshesta, hvalaskoðun í boði Eldingar og aðrar skoðunarferðir í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.

Dagskránni lýkur svo með palestínsku kaffihúsakvöldi sem haldið verður í Molanum, ungmennahúsi Kópavogs, föstudagskvöldið 21. ágúst. Þar munu ungir sjálfboðaliðar Rauða krossins og palestínsku ungmennin eiga skemmtilega kvöldstund saman og deila reynslusögum af sjálfboðaliðastörfum sínum. Þar að auki munu samtökin Ísland- Palestína vera með kynningu á sínu starfi og reynslu af sjálfboðaliðastörfum. Ungt fólk er sérstaklega hvatt til að mæta og nýta sér þetta kjörna tækifæri til þess að fá innsýn inn í störf ungra sjálfboðaliða innan ólíkra menningarheima.

Tariq tók sig vel út á íslenskum hesti.

Ástæðuna fyrir þessari heimsókn má rekja til Yoko Ono en hún veitti Íslendingum friðarverðlaun sín í fyrra. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tók við þeim og afhenti Rauða krossi Íslands með þeim tilmælum að verðlaunafénu yrði varið til að bjóða ungmennum hingað til lands frá Palestínu. Ungmennin sem fengu boð þetta árið hafa meðal annars starfað við sjúkraflutninga en gert er ráð fyrir að heimsókn ungra sjálfboðaliða frá Palestínu verði árlegur viðburður næstu árin og deildir víða um land skiptist á að vera gestgjafar. Í þetta sinn verða deildirnar á höfuðborgarsvæðinu gestgjafarnir með aðstoð frá landsskrifstofu Rauða krossins.