Palestínskt kaffihúsakvöld

24. ágú. 2009

Ungir sjálfboðaliðar innan Plússins, ungmennastarfs Kópavogsdeildar, stóðu fyrir palestínsku kaffihúsakvöldi í samvinnu við Molann, menningarhús Kópavogs, síðastliðið föstudagskvöld. Kvöldið var bæði fróðlegt og skemmtilegt og fjölbreyttur hópur gesta mætti.

Dagskráin hófst með kynningu ungra sjálfboðaliða frá Palestínu en þeir eru staddir hér á landi á vegum Rauða krossins. Þeir veittu gestum innsýn í sögu og menningu Palestínu, starf Rauða hálfmánans þar í landi auk þess sem þeir deildu reynslusögum af sínum eigin sjálfboðaliðastörfum þar en þeir hafa aðallega sinnt sjúkraflutningum í Betlehem og Nablus. Sjálfboðaliðar frá samtökunum Ísland-Palestína ræddu einnig um störf sín og reynslu af sjálfboðaliðastarfi þar í landi. Kvöldinu lauk síðan með kynningu frá ungliðum Ungmennahreyfingar Rauða kross Íslands en þeir fjölluðu einnig um sín sjálfboðnu störf, bæði hérlendis og í Palestínu.

Kópavogsdeildin þakkar sínum ungu sjálfboðaliðum kærlega fyrir frábært framtak.