Reynsla ungra sjálfboðaliða Kópavogsdeildar

Unni Tryggvadóttur Flóvenz og Sigrúnu Skaftadóttur

28. ágú. 2009

Okkur langar aðeins til að gefa innsýn inn í reynslu okkar af starfi í Plúsnum, ungmennastarfi Kópavogsdeildar.

Í síðustu viku tók Kópavogsdeild og við í ungmennastarfinu á móti tveimur palestínskum strákum sem voru í heimsókn á landinu á vegum Rauða kross Íslands. Þeir hafa unnið sem sjálfboðaliðar fyrir Rauða hálfmánann í Palestínu þar sem þeir sinna meðal annars sjúkraflutningum. Við höfðum fengið það hlutverk að skipuleggja dagskrá fyrir þá þessa þrjá daga sem þeir voru hjá okkur í Kópavoginum og við gerðum margt skemmtilegt saman.

Við byrjuðum á því að kynna fyrir þeim deildina okkar og fyrsta daginn fórum við einnig með þá á hestbak og síðan í hvalaskoðun. Annan daginn fórum við á Þingvelli, Gullfoss og Geysi og síðasta daginn fórum við síðan í Bláa lónið. Heimsókn þeirra lauk svo með palestínsku kaffihúsi sem við höfðum skipulagt en þangað fengum við góða gesti frá Ungmennahreyfingu Rauða krossins og samtökunum Ísland-Palestína og fræddumst auk þess um líf strákanna í Palestínu, sögu landsins þeirra og sjálfboðastörf þeirra sem sjúkraflutningamenn.

Við lærðum ýmislegt á þessum þremur dögum með stákunum Fawas og Tariq. Til dæmis sögðu þeir okkur frá brúðkaupshefðum í Palestínu sem eru mjög ólíkar okkar hefðum. Þeir kynntu okkur fyrir arabískri tónlist, sem var aðallega frá Lýbíu og Egyptalandi. Það sem okkur fannst samt merkilegast var hvað líf þeirra er í raun „venjulegt“ ef svo má að orði komast. Þrátt fyrir stríðsástandið sem ríkir í Palestínu þar sem menn geta átt von á sprengingum á hverri stundu gera þeir nákvæmlega sömu hluti og íslensk ungmenni. Þeir hitta vini sína á kvöldin og um helgar, skrifa sms, mæta í skólann, fara út á lífið og hanga í tölvunni.

Okkar þátttaka í þessari heimsókn gaf okkur ótrúlega mikið. Við urðum þakklátari fyrir það öryggi sem við búum við á Íslandi. Við eignuðumst þarna vini frá Palestínu sem okkur langar til að halda tengslum við og síðast en ekki síst öðluðumst við reynslu og nýja sýn á svo marga hluti.