Námskeið fyrir nýja heimsóknavini haldið í gær

2. sep. 2009

Undirbúningsnámskeið fyrir nýja heimsóknavini var haldið í sjálfboðamiðstöðinni í gær og tóku átta sjálfboðaliðar þátt að þessu sinni. Á námskeiðinu var farið yfir þau atriði sem mikilvæg eru fyrir heimsóknavini að hafa í huga þegar þeir sinna heimsóknaþjónustu. Þá var einnig starf deildarinnar kynnt og heimsóknavinur sagði frá reynslu sinni. Athvarfið Dvöl var líka kynnt sérstaklega en heimsóknavinir sinna einnig sjálfboðnum störfum þar. Að loknu námskeiðinu eru þátttakendurnir tilbúnir í verkefni og sér verkefnastjóri heimsóknaþjónustunnar um að koma á heimsóknum þeirra til gestgjafa.

Heimsóknavinirnir rjúfa einsemd og félagslega einangrun fólks með heimsóknum á einkaheimili og stofnanir. Þeir veita félagsskap meðal annars með því að spjalla, lesa fyrir viðkomandi, leika á hljóðfæri og fara í gönguferðir. Þeir sem hafa áhuga á að gerast heimsóknavinir eða fá til sín heimsóknavin geta haft samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected].