Jákvæð hugsun á samveru heimsóknavina

9. sep. 2009

Heimsóknavinir fjölmenntu á mánaðarlega samveru þeirra í sjálfboðamiðstöðinni í gær. Alls mættu 15 heimsóknavinir sem sinna sjálfboðnum störfum á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð, á sambýlum aldraðra og á einkaheimilum. Að þessu sinni var boðið upp á erindi um jákvæða hugsun frá Lótushúsi en það er miðstöð þar sem reglulega eru haldin hugleiðslu- og hugræktarnámskeið. Erindið hófst á stuttri hugleiðslu og síðan var lögð áhersla á að veita heimsóknavinunum aukinn skilning á eðli og mátt hugsana. Þá var sérstaklega farið yfir mikilvægi jákvæðra hugsana og hvernig þær geta bætt lífið.

Samverur heimsóknavina eru haldnar annan þriðjudag í hverjum mánuði og eru þær tækifæri fyrir heimsóknavinina að hittast, deila reynslu sinni og eiga ánægjulega stund saman. Reglulega er boðið upp á fjölbreyttar kynningar, fræðslu eða hópefli. Á samverunum eru heimsóknavinir úr Sunnuhlíð, sambýlum aldraðra, einkaheimilum og athvarfinu Dvöl.

Þeir sem hafa áhuga á að gerast heimsóknavinir eða fá til sín heimsóknavin geta haft samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected].