Kynningarstarf í fullum gangi

11. sep. 2009

Um þessar mundir stendur yfir kynningarstarf á vegum Kópavogsdeildar innan unglingadeilda grunnskóla Kópavogs. Á kynningunum fá nemendur innsýn í starf Rauða krossins bæði innanlands og erlendis í máli og myndum. Þá er einnig sagt frá helstu verkefnum Kópavogsdeildar og hvernig nemendurnir geti sjálfir tekið þátt. Verkefnastjóri Kópavogsdeildar hefur fengið frábærar móttökur í skólum bæjarins og nemendur sýna málefninu mikinn áhuga. Þeir eru duglegir við að spyrja spurninga og oftar en ekki skapast mikil og góð umræða um hin ýmsu málefni er snerta starf Rauða krossins.

Ungmennastarfið sem býðst þessum 13–16 ára aldurshópi kallast Eldhugar en þeir halda samverur í sjálfboðamiðstöðinni alla fimmtudaga frá kl. 17.30-19.00. Þar hittast bæði íslensk og erlend ungmenni sem vilja vinna saman að því að byggja betra samfélag í takt við hugsjónir Rauða krossins, án mismununar og fordóma. Á samverum er unnið með ýmis hugtök líkt og virðingu og umburðarlyndi í gegnum skapandi verkefni og fræðslu líkt og ljósmyndun og leiklist. Eldhugar hafa meðal annars haldið ljósmyndakeppni, farið í vettvangsheimsóknir, gefið út blað, haldið sýningar á verkum sínum og látið gott af sér leiða með ýmsum hætti.