Undirbúningur, hópefli og fræðsla fyrir nýja sjálfboðaliða í ungmennastarfi

15. sep. 2009

Í gærkvöldi var haldið undirbúnings- og fræðslukvöld fyrir þá sjálfboðaliða Kópavogsdeildar sem munu vinna í verkefnum er lúta að börnum og unglingum í vetur.

Kvöldið hófst með hópefli þar sem sjálfboðaliðarnir fengu tækifæri til að kynnast hver öðrum. Þá kynnti verkefnastjóri ungmennamála fyrir þeim verkefnin sem sjálfboðaliðarnir munu koma til með að starfa í; Enter og Eldhuga. Hann fór einnig yfir hlutverk sjálfboðaliðans með tilliti til þessara tveggja verkefna. Auk þess fengu sjálfboðaliðarnir tækifæri til að koma með tillögur og hugmyndir að þemaverkefnum og viðfangsefnum fyrir starf vetrarins.

Sjálfboðaliðarnir fengu sömuleiðis fræðslu frá Jóhanni Thoroddsen, verkefnastjóra sálræns stuðnings á landsskrifstofu Rauða krossins, og fjallaði hann um samskipti milli sjálfboðaliða og þátttakenda og viðbrögð við ýmsum aðstæðum sem geta komið upp. Kvöldið endaði með erindi þar sem Björn Kristján Arnarsson ræddi við sjálfboðaliðana um sjálfsmynd unglinga og mikilvægi uppbyggjandi og jákvæðra hugsana í lífi og starfi.

Jóhann Thoroddsen fjallaði um samskipti sjálfboðaliða og þátttakenda.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í annaðhvort Enter eða Eldhugum geta haft samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected].