Viltu tala meiri íslensku?

16. sep. 2009

Hópur sjálfboðaliða hitti í gær innflytjendur sem taka þátt í verkefninu Viltu tala meiri íslensku? en það er hluti af heimsóknaþjónustu deildarinnar. Þetta var fyrsta samveran eftir sumarfrí en verkefnið hófst í janúar á þessu ári. Á samverunum gefst innflytjendunum tækifæri til að tala íslensku við íslenska sjálfboðaliða og þannig þjálfa sig í notkun málsins. Hópurinn mun hittast vikulega í vetur á þriðjudögum í Molanum, ungmennahúsi Kópavogs. 

Þátttakendur í verkefninu koma frá ólíkum löndum og hafa til dæmis verið frá Póllandi, Ástralíu, Ítalíu, Tíbet, Sri Lanka og Eþíópíu. Þeir kunna mismikið í íslensku en lítil íslenskukunnátta er engin fyrirstaða fyrir skemmtilegum og gagnlegum samverustundum hópsins. Allir eru velkomnir til að taka þátt, sama hver kunnáttan er.

Þeir sem hafa áhuga á að nýta sér þetta tækifæri og æfa sig í íslensku geta haft samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected]