Nemendur í áfanga um þróunarlönd í MK heimsækja deildina

25. sep. 2009

Nemar í áfanganum Félagsfræði þróunarlanda við Menntaskólann í Kópavogi heimsóttu deildina nú í morgun. Þeir fengu kynningu á starfi deildarinnar og helstu verkefnum sem hún sinnir á alþjóðavísu. Má þar nefna vinadeildasamstarf við Rauða kross deildina í Maputo-héraði í Mósambík og verkefnið Föt sem framlag en það miðar meðal annars að því að útbúa og senda fatapakka til ungbarna í neyð í Malaví.

Birna Halldórsdóttir, verkefnastjóri á landssskrifstofu Rauða krossins, fjallaði um alþjóðastarf landsfélagsins en hún heldur meðal annars utan um verkefni sendifulltrúanna sem starfa að ýmis konar uppbyggingu og neyðaraðstoð á vegum Rauða kross Íslands út um allan heim. Birna sýndi nemendum einnig myndir og muni frá ferðum sínum til Malaví þar sem hún dvaldi sjálf við hjálparstörf.

Má segja að nemendurnir hafi orðið margs vísari um starf Rauða krossins á alþjóðavísu eftir heimsókn þeirra til deildarinnar og vonandi nýtist það þeim áfram í náminu.