Metþátttaka í prjónakaffi

1. okt. 2009

Alls mættu 47 sjálfboðaliðar í prjónakaffi sem haldið var í sjálfboðamiðstöðinni í gær. Ekki hafa áður mætt fleiri sjálfboðaliðar í eitt prjónakaffi frá því að deildin stóð fyrir fyrsta prjónakaffinu í febrúar 2007. Þetta er því metþátttaka. Prjónaglöðu sjálfboðaliðarnir komu með prjónaflíkur sem þeir höfðu unnið að síðasta mánuðinn og fengu meira garn til að halda áfram að prjóna. Svo var boðið upp á kaffi og meðlæti og áttu sjálfboðaliðarnir ánægjulega stund saman. Prjónakaffi er haldið síðasta miðvikudag hvers mánaðar frá kl. 16-18.

Prjónahópurinn tilheyrir verkefninu Föt sem framlag og prjónar, heklar og saumar ungbarnaföt sem send eru til fjölskyldna og barna í neyð í Afríkuríkinu Malaví. Sjálfboðaliðarnir útbúa pakka með fötunum en í þá fer prjónuð peysa, teppi, sokkar, húfa og bleyjubuxur ásamt handklæði, taubleyjum, buxum og samfellum. Í fyrra sendi deildin frá sér 640 pakka og á þessu ári eru þeir orðnir 412 en fleiri pakkar verða útbúnir fyrir árslok.

Þeir sem vilja taka þátt í þess verkefni geta haft samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is. Þeir sem vilja styrkja verkefni með garnafgöngum er einnig bent á að hafa samband við deildina. Allir afgangar eru vel þegnir.