Tíkin Karólína afrekshundur ársins

5. okt. 2009

Það er deildinni sönn ánægja að greina frá því að tíkin Karólína, sem sinnir heimsóknaþjónustu með eiganda sínum, var heiðruð um helgina sem afrekshundur ársins af Hundaræktarfélagi Íslands. Karólína er sex ára blendingur Border og Springer. Hún og Guðleifur eigandi hennar mynda heimsóknavinateymi sem hefur farið í heimsóknir á vegum deildarinnar síðan haustið 2007.

Fyrsta verkefni þeirra var að fara á hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð og heilsa upp á heimilisfólkið þar. Þau ganga á milli deilda og fólkið getur klappað Karólínu og spjallað við Guðleif. Þessar heimsóknir standa enn yfir og fylgir komu þeirra jafnan mikil gleði hjá fólkinu. Þau hafa líka heimsótt Enter-hópinn en hann mynda börn úr nýbúadeildinni í Hjallaskóla sem koma vikulega á samverur í sjálfboðamiðstöðinni. Guðleifur hefur spjallað við börnin um hunda og sagt þeim frá Karólínu. Þá hafa börnin fengið að klappa henni og gefa henni nammi í skiptum fyrir nokkrar kúnstir eins og handaband og setur. Guðleifur og Karólína voru svo fljót að bregðast við sérstakri beiðni frá gjörgæsludeild Landspítalans í vor um heimsókn til ungs drengs sem var á deildinni.

Karólína og Guðleifur í heimsókn í Sunnuhlíð.

Karólína og Guðleifur sinna sjálfboðaliðastörfum sínum með miklum sóma og deildin er mjög þakklát fyrir þeirra framlag. Við óskum þeim báðum kærlega til hamingu með árangurinn og vonum að við fáum að njóta krafta þeirra lengi vel.