Kannt þú skyndihjálp?

8. okt. 2009

Skyndihjálp er fyrsta aðstoð sem veitt er slösuðu eða bráðveiku fólki. Hún getur skipt sköpum um lífslíkur og bata. Kópavogsdeild heldur reglulega námskeið í almennri skyndihjálp og hafa námskeiðin að jafnaði verið vel sótt. Næsta námskeið verður 20. október og munu þátttakendurnir læra grundvallaratriði í skyndihjálp og endurlífgun og verða þar með hæfir til að veita fyrstu hjálp á slysstað.

Útbreiðsla skyndihjálpar hefur verið eitt af meginverkefnum Rauða kross Íslands í um 80 ár og félagið hefur það að markmiði að efla skyndihjálparþekkingu hér á landi. Ein leiðin til þess er að bjóða upp á námskeið í skyndihjálp fyrir almenning, fagaðila, starfsmenn fyrirtækja, grunnskólanemendur og aðra.

Námskeiðsgjaldið er 4.500 krónur. Námskeiðið er sjálfboðaliðum deildarinnar að kostnaðarlausu og félagsmenn sem greitt hafa félagsgjaldið fá 10% afslátt. Hægt er að skrá sig með því að smella hér.

Þeir sem vilja gerast félagsmenn í Kópavogsdeild geta haft samband í síma 554 6626 eða skráð sig hér.