„Sjálfboðaliðastarf er frábært!” – viðtal við Sigrúnu Hjörleifsdóttur heimsóknavin

9. okt. 2009

Sigrún skráði sig sem sjálfboðaliða hjá deildinni snemma árs 2008. Hún hafði séð ungmennastarf deildarinnar auglýst og benti syni sínum á að taka þátt í starfinu en þegar hún kannaði hvað fleira deildin byði upp á sá hún ýmislegt áhugavert fyrir sjálfa sig. Hana langaði að gefa af sér og hún hafði góðan tíma svo hún fór á námskeið fyrir nýja heimsóknavini. Hún fékk fljótlega verkefni sem heimsóknavinur konu á einkaheimili og hefur nú sinnt þeirri heimsókn í eitt og hálft ár.

Heimsóknir Sigrúnar snúast að mestu um spjall en hún hefur líka farið út að ganga með gestgjafa sínum og aðstoðað hann við að fara út í búð og banka. Gestgjafinn býður gjarnan upp á kaffi og heimabakað góðmeti eins og pönnukökur. Þær eiga sameiginlegt áhugamál, prjón, og ræða það iðulega. Sigrún segir að henni finnist gaman að heimsækja gestgjafa sinn og að það gefi henni mikið, sérstaklega því hún veit að gestgjafinn fær ekki margar heimsóknir og hefur gaman af heimsóknum Sigrúnar. Það sem Sigrúnu finnst einnig sérstaklega skemmtilegt er að ræða við gestgjafa sinn um lífið og tilveruna en eldri gestgjafinn hefur aðra sýn á lífið og gefur það Sigrúnu mikið að heyra af því.

Þegar Sigrún er spurð út í sjálfboðaliðastarfið er svarið einfalt: „Frábært”. Áður en hún tók þátt í starfinu taldi hún að Rauði kross Íslands sinnti aðallega verkefnum á alþjóðavísu en það kom henni á óvart hversu fjölbreytt verkefnin eru innanlands og að í raun sé eitthvað fyrir alla hér heima hjá Rauða krossinum. Hún hafði einnig orð á því hvað Rauða krossinn væri fljótur að bregðast við neyð og áföllum og nefndi hún sérstaklega verkefnið Nýttu tímann hjá Kópavogsdeild en verkefnið var viðbrögð deildarinnar við efnahagshruninu síðasta haust.

Sigrún telur sjálfboðaliðastarf mjög mikilvæg því það býr til betra samfélag. Hugmyndin um að aðstoða aðra í gegnum sjálfboðin störf eflir samfélagið og því fleiri sem sinna slíkum störfum því betra, segir Sigrún. Ef hún hefði meiri tíma myndi hún gera meira. Sigrún sinnir þó ekki bara heimsóknum heldur er hún líka hópstjóri heimsóknaþjónustunnar og sem slíkur aðstoðar hún til dæmis á samverum heimsóknavina og segir frá reynslu sinni á námskeiðum fyrir nýja heimsóknavini. Hún sat einnig aðalfund Rauða krossins í vor fyrir hönd Kópavogsdeildar. 

Þeir sem vilja gerast félagsmenn í Kópavogsdeild geta haft samband í síma 554 6626 eða skráð sig hér.