Sjálfboðaliðar sinna neyðarvörnum

12. okt. 2009

Kópavogsdeild ásamt öðrum Rauða kross deildum um allt land myndar neyðarvarnanet Rauða kross Íslands. Sjálfboðaliðar deildarinnar eru reiðubúnir til þess að leggja fram krafta sína ef til neyðarástands kemur vegna náttúruhamfara eða af öðrum ástæðum. Á neyðarvarnaáætlunum deildarinnar eru skráðir fjöldahjálparstjórar, sem eru tilbúnir að bregðast við ef á þarf að halda. Þeir eru þjálfaðir í neyðarvörnum og gegna lykilhlutverki þegar opna þarf fjöldahjálparstöðvar.

Slíkar stöðvar eru opnaðar á hættu- og neyðartímum til að taka á móti fólki sem þarf að yfirgefa heimili sín. Þar fer fram skráning sem miðar að því að sameina fjölskyldur auk þess sem fólk fær fæði, klæði, upplýsingar og nauðsynlega aðhlynningu eftir atvikum. Fjöldahjálparstöðvarnar í Kópavogi eru Digranesskóli, Kársnesskóli og Lindaskóli. Sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar að Hamraborg 11 getur líka gegnt hlutverki fjöldahjálparstöðvar. Sjálfboðaliðarnir vinna að neyðarvörnum samkvæmt neyðarvarnaskipulagi Rauða krossins en neyðarnefnd höfuðborgarsvæðis hefur umsjón með skipulagi neyðarvarna á vegum deildarinnar.

Auk þess að bregðast við náttúruhamförum eins og jarðskjálfta, eldgosi og flóðum eða áföllum eins og bruna þá á Rauði krossinn þátt í viðbragðsáætlun Almannavarna vegna heimsfaraldurs inflúensu. Hlutverk Rauða krossins og sjálfboðaliða félagsins tengist meðal annars að auka virkni Hjálparsímans 1717 en þar er hægt að leita upplýsinga um inflúensu, útbúa neyðarmatvælapökkun ef fólk einangrast, tryggja nægan búnað í sjúkrabifreiðum og veita sálrænan stuðning.

Um þessar mundir óskar Rauða krossinn sérstaklega eftir að fólk gerist svokallaður liðsauki til að vera til taks neyðartímum. Liðsaukar standa þá fyrir utan hið formlega sjálfboliðakerfi félagsins en eru tilbúnir að aðstoða þegar kallið kemur. Verkefni liðsauka gætu til dæmis verið að svara í símann og veita upplýsingar, sálrænn stuðningur, skrá niður upplýsingar og útbúa mat. Það er Rauða krossinum ómetanlegt að geta leitað til fólks sem hefur gefið kost á sér fyrirfram og er reiðubúið að nýta reynslu sína og þekkingu í þágu þolenda áfalla. Hægt er að skrá sig sem liðauka með því að smella hér.
Þeir sem hafa áhuga á að gerast sjálfboðaliðar í neyðarvörnum hjá Kópavogsdeildinni geta aftur á móti haft samband í síma 554 6626 eða með því að senda tölvupóst á kopavogur@redcross.is.

Þeir sem vilja gerast félagsmenn í Kópavogsdeild geta haft samband í síma 554 6626 eða skráð sighér.