Félagar í Rauða krossinum aðstoða Kópavogsbúa í vanda

13. okt. 2009

Í Rauðakrossvikunni 12.-17. október leggur Kópavogsdeild Rauða krossins áherslu á að fjölga félagsmönnum í deildinni og leitast þannig við að efla starfið í þágu þeirra Kópavogsbúa sem þurfa á aðstoð að halda. Í dag sendir deildin bókamerki inn á öll heimili í bænum og vill með því framtaki vekja athygli á átakinu. Með því að gerast félagsmaður í Kópavogsdeild leggur fólk árlega 1.200 krónur í að aðstoða bágstadda Kópavogsbúa. 

Deildin aðstoðar bágstaddar fjölskyldur í Kópavogi þegar á reynir, meðal annars með neyðaraðstoð í samvinnu við mæðrastyrksnefnd og vikulegri fataúthlutun. Deildin sinnir þeim sem búa við einsemd og félagslega einangrun með öflugri heimsóknaþjónustu við þá sem þurfa og býður uppá uppbyggjandi starf fyrir börn og ungmenni. Einnig tekur deildin þátt í neyðarvörnum og viðbúnaði vegna almannavarna. Kópavogsdeild þarf stuðning almennings til að halda uppi öflugu starfi og þjónustu í heimabyggð.
 
Þeir sem vilja gerast félagsmenn í Kópavogsdeild geta haft samband í síma 554 6626 eða skráð sig hér.