Föt sem framlag til bágstaddra

14. okt. 2009

Á hverju ári berast hundruð tonna af notuðum fötum til Rauða krossins. Þessi föt nýtast fólki sem býr við bág kjör eða lendir í áföllum, bæði innanlands og erlendis. Hluti fatnaðarins er flokkaður í Fatasöfnunarstöð Rauða krossins í Skútuvogi 1 og sendur í búðirnar sem Rauði krossinn rekur. Búðirnar eru þrjár; við Strandgötu 24 í Hafnarfirði og í Reykjavík við Laugaveg 12 og Laugaveg 116. Sjálfboðaliðar sinna afgreiðslustörfum í búðunum en í búðinni við Laugaveg 116 er einnig fataúthlutun á miðvikudögum kl. 10-14. Fólk sem býr við kröpp kjör getur því leitað þangað vanti það föt.

Það sem ekki er flokkað er selt til flokkunarfyrirtækja í Evrópu. Ágóðinn af útflutningnum og rekstri búðanna rennur í Hjálparsjóð Rauða krossins og er sjóðurinn nýttur í alþjóðlega neyðaraðstoð, neyðarvarnir og þróunaraðstoð.

Sjálfboðaliðar prjóna einnig ungbarnaföt sem send eru til Malaví og Gambíu til fjölskyldna og barna í neyð. Hluti fatanna nýtist hér innanlands. Sjálfboðaliðarnir prjóna teppi, peysur, húfur, sokka og fleira og er markmiðið að mæta skorti á ungbarnafötum en í almennum fatasöfnunum berst minnst af barnafötum. Hjá Kópavogsdeild hittist hópur sjálfboðaliða sem sinnir ungbarnafataverkefninu síðasta miðvikudag í hverjum mánuði í sjálfboðamiðstöðinni í Hamraborg 11. Þessi svokölluðu prjónakaffi standa yfir kl. 16-18. Þeir sem hafa áhuga á að slást í hópinn geta haft samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is.

Þeir sem vilja gerast félagsmenn í Kópavogsdeild geta haft samband í síma  eða skráð sig hér.