Heimsóknavinir gefa lífinu lit

15. okt. 2009

Heimsóknir sjálfboðaliða til fólks sem býr við einsemd og félagslega einangrun eru umfangsmesta verkefni sjálfboðaliða á vegum Kópavogsdeildar og eitt af áhersluverkefnum hennar. Eftirspurnin eftir heimsóknum hefur aukist jafnt og þétt og heimsóknavinir á vegum deildarinnar sinna nú verkefnum á ýmsum stöðum í Kópavogi. Vel á annað hundrað sjálfboðaliða eru heimsóknavinir Kópavogsdeildar.

Hlutverk heimsóknavina er að veita félagsskap og hlýju. Þeir heimsækja fólk sem býr við alls konar aðstæður og er á öllum aldri. Sumir eru einstæðingar, aðrir eru veikir og komast lítið út og enn aðra vantar tilbreytingu í dagana sína þar sem þeir eru mikið einir yfir daginn þó þeir eigi jafnvel stórar fjölskyldur.

Heimsóknavinir heimsækja fólk í heimahúsum og veita því félagsskap með því að spila, spjalla og fara í göngu- eða ökuferðir, svo eitthvað sé nefnt. Þeir heimsækja heimilisfólk á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð og fólkið sem býr á sambýlum aldraðra í Gullsmára, Roðasölum og við Skjólbraut. Börnin í Rjóðrinu, hvíldarheimili fyrir langveik börn, njóta einnig félagsskapar heimsóknavina og heimsóknavinur sinnir upplestri á líknardeildinni í Kópavogi. Heimsóknavinir heimsækja einnig Dvöl, athvarf fyrir fólk með geðraskanir. Þá eru heimsóknir í fangelsið í Kópavogi og hópur heimsóknavina hittir vikulega fólk af erlendum uppruna sem vill tala meiri íslensku og þjálfa sig í notkun málsins. Auk þess má geta að rúmlega tíu sjálfboðaliðar heimsækja með hundana sína en Kópavogsdeild var fyrst deilda innan Rauða krossins til að hefja notkun hunda í heimsóknaþjónustu.

Flestir heimsóknavinir starfa í hverri viku, klukkustund í senn. Þeir sem hafa áhuga að fá heimsókn til sín er bent á að hafa samband við deildina í síma 554 6626 eða með því að senda tölvupóst á kopavogur@redcross.is.

Þeir sem vilja gerast félagsmenn í Kópavogsdeild geta haft samband í síma eða skráð sig hér.