Vöfflukaffi í Dvöl

16. okt. 2009

Opið hús verður í Dvöl laugardaginn 17. október kl. 13-15.

Markmiðið með rekstri Dvalar er að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við geðræna sjúkdóma að stríða. Áhersla er lögð á að efla sjálfstæði og virkni gestanna. Fjölbreytt dagskrá er í boði í Dvöl þar sem flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, þ.á.m. listsköpun, gönguferðir og kyrrðarstundir. Margir koma einnig í Dvöl einfaldlega til að slaka á, horfa á sjónvarp, ræða við aðra gesti og starfsfólk eða líta í blöðin.

Það sem Dvöl hefur gert fyrir mig
„Ég sæki Dvöl tvisvar til þrisvar í viku og meðal annars til þess að rjúfa félagslega einangrun. Þar er margt gert í Dvöl, handavinna og alls konar föndur sem ég hef gaman af. Svo er farið í göngutúra. Ég hef líka farið í dagsferðir, leikhús og á listasöfn. Þar eru allir jafnir. Þar er heitur matur í hádeginu og starfsfólk sérstaklega vingjarnlegt, við lærum líka margt af því. Gott er að koma í Dvöl og þar er alltaf vel tekið á móti manni. Þar er líka gott að sitja og spjalla, skiptast á skoðunum. Dvöl hefur hjálpað mér mikið og oft komið í veg fyrir innlagnir á geðdeild, ef ég færi ekki niður í Dvöl myndi ég bara einangra mig."
-Alfa Malmquist.

Um veru mína í Dvöl
„Þegar ég kom fyrst í Dvöl að áeggjan systur minnar, eftir fráfall móður minnar, hafði hún í huga að félagslyndið myndi batna hjá mér og gekk það eftir. Ég hef alltaf hlakkað til að mæta í Dvöl og yfirleitt alltaf leikið á alls oddi. Mér hefur aldrei orðið misdægurt og þakka ég það góðri sköpun starfsfólks. Með öðrum orðum er þetta mikið menningarhús og hef ég haft á orði að hróður þess berist út um víða veröld."
-Haraldur Pálmar Haraldsson.

Dvöl fyrir mig
„Dvöl er nauðsynlegur staður. Ég hef leitað þangað eftir félagsskap. Gott er að koma og spjalla og bera saman handavinnu og fá góð ráð. Þar hef ég kynnst góðu fólki sem sýnir skilning. Þar er boðið upp á mat í hádeginu sem ég hef notið góðs af. Takk fyrir að vera til."
-Helga Pálsdóttir.

Vera mín í Dvöl
„Það sem Dvöl hefur gert fyrir mig er svo margt og er erfitt að nefna eitthvað umfram annað. Ég er ekki bara hangandi heima ein að láta mér leiðast heldur hef ég stað þar sem ég er innan um gott fólk. Í Dvöl er hlýlegt og notalegt andrúmsloft sem er líka svo heimilislegt og þangað kem ég á eigin forsendum. Það fylgja engar kvaðir, maður kemur og fer eins og manni hentar best. Starfsfólkið hér í Dvöl er til fyrirmyndar og er alltaf svo blítt í minn garð, ég kem á hverjum virkum degi og líkar mjög vel. Þar er prjónað og heklað af kappi. Dvöl hefur hjálpað mér að gera mér fasta rútínu yfir daginn, ég veit alltaf hvað ég er að fara að gera og þarf ekki að vera í óvissu um hvernig ég eigi að hafa daginn. Svo kemur hundur í heimsókn á þriðjudögum og ég ætla að nýta mér það, enda hundavinur. Dvöl hefur hjálpað mér á margan hátt, ég hef náð að rjúfa félagslega einangrun og lært að nýta daginn í eitthvað jákvætt. Ég er þakklát fyrir að svona staður skuli vera til fyrir mann, það er ætíð gott að koma í Dvöl og ég ætla að halda því áfram eins lengi og ég hef getu til."
-Anna Helga Sigurbjargardóttir.

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands annast rekstur Dvalar í samvinnu við Kópavogsbæ og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi. Sjálfboðaliðar á vegum Rauða krossins gegna mikilvægu hlutverki í rekstri Dvalar, meðal annars með því að hafa athvarfið opið á laugardögum. Þeir taka þátt í starfsemi athvarfsins og veita gestunum félagsskap.

Þeir sem vilja gerast félagsmenn í Kópavogsdeild geta haft samband í síma eða skráð sig hér.