Námskeið í sálrænum stuðningi

17. okt. 2009

Eitt af meginhlutverkum Rauða krossins er að veita stuðning og aðstoð þegar hamfarir, hættur eða önnur áföll steðja að. Félagið leggur mikið upp úr sálrænum stuðningi og leitast bæði við að þjálfa sjálfboðaliða til að veita slíkan stuðning og fræða almenning um gildi hans. Fjölmargar deildir Rauða krossins bjóða upp á námskeið í sálrænum stuðning og heldur Kópavogsdeildin eitt slíkt þriðjudaginn 27. október.

Á námskeiðinu fræðast þátttakendur um gildi sálræns stuðnings í aðstæðum sem geta valdið áföllum. Þátttakendur læra að gera sér betur grein fyrir eðlilegum viðbrögðum fólks sem lendir í sársaukafullum aðstæðum og hvernig þeir geti veitt stuðning og umhyggju. Viðfangsefnin verða meðal annars mismunandi tegundir áfalla, áhrif alvarlegra atvika á einstaklinginn, sálræn skyndihjálp, stuðningur við úrvinnslu alvarlegs atviks, sorg og sorgarferli. Hægt er að skrá sig á námskeiðið með því að smella hér.

Rauði kross Íslands sinnir fjöldahjálp og félagslegu hjálparstarfi samkvæmt samningi við Almannavarnir ríkisins. Rauða kross deildir opna fjöldahjálparstöðvar á hættu- og neyðartímum þar sem fólki er veitt fyrsta aðstoð svo sem upplýsingar, fæði og klæði og sameining fjölskyldna fer fram. Rauði krossinn bregst einnig við skyndilegum áföllum utan almannavarnaástands eins og húsbrunum og flóðum. Við þessar aðstæður er sálrænn stuðningur einnig veittur.

Hægt er að skrá sig með því að smella hér. Námskeiðsgjaldið er 5000 krónur. Sjálfboðaliðar deildarinnar fá frítt á námskeiðið og þeir félagsmenn sem hafa greitt árgjaldið fá 10% afslátt.

Þeir sem vilja gerast félagsmenn í Kópavogsdeild geta haft samband í síma 554 6626 eða skráð sig hér.