Getur Rauðakrosshúsið nýst þér?

18. okt. 2009

Rauðakrosshúsið er miðstöð fyrir alla landsmenn þar sem einstaklingar og fjölskyldur geta leitað stuðnings við að takast á við breyttar aðstæður eða nýtt krafta sína sjálfum sér og öðrum til gagns. Í húsinu er boðið upp á sálrænan stuðning og ráðgjöf um ýmis úrræði sem bjóðast í samfélaginu. Þá er einnig boðið upp á fræðslu og félagsstarf sem er opið öllum. Það er alltaf heitt á könnunni og gestir geta farið á netið í tölvuverinu, lesið blöðin og átt góða stund í húsinu.

Fólk er einnig hvatt til að nýta krafta sína með því að þróa og skapa sín eigin verkefni sem gjarnan nýtast öðrum í Rauðakrosshúsinu. Sjálfboðaliðar hafa til dæmis komið af stað prjóna- og gönguhópum í húsinu. Tölvuglöggir sjálfboðaliðar bjóða upp á tölvuaðstoð og aðrir hafa stofnað bókaklúbb sem hittist vikulega og enn aðrir sjá um föndur.

Rauðakrosshúsið er í Borgartúni 25 og er opið á virkum dögum kl. 12-17. Dagskrá hverrar viku er birt á heimasíðu hússins www.raudakrosshusid.is. Einkunnarorð þess eru samvinna, stuðningur og sjálfboðin vinna. Starfið byggist á áralangri reynslu Rauða krossins af viðbrögðum í neyð.

Þeir sem vilja nýta sér aðstoð Rauðakrosshússins eru hvattir til að líta þar við en þeir sem vilja gerast sjálfboðaliðar í húsinu geta haft samband við Kópavogsdeild í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is.

Þeir sem vilja gerast félagsmenn í Kópavogsdeild geta haft samband í síma eða skráð sig hér.