Sjálfboðaliðar kynntu starf Rauða krossins

19. okt. 2009

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar tóku þátt í að kynna starf Rauða krossins í kynningarvikunni sem er nú nýafstaðin. Átta sjálfboðaliðar frá deildinni kynntu starfið ásamt sjálfboðaliðum frá öðrum deildum á höfuðborgarsvæðinu en alls stóðu þrjátíu manns vaktina. Kynningarnar voru á fimmtudag, föstudag og laugardag í Smáralindinni, Kringlunni og IKEA. Sjálfboðaliðarnir dreifðu bæklingum um Liðsauka en í þeim hópi eru sjálfboðaliðar sem eru tilbúnir að aðstoða Rauða krossinn á tímum áfalla. Fólk gat skráð sig í hópinn hjá sjálfboðaliðunum en einnig fræðst um önnur verkefni hjá félaginu.

Sjálfboðaliðar deildarinnar sem tóku þátt í kynningunni komu úr fjölbreyttum verkefnum eins og heimsóknaþjónustunni, ungmennastarfinu, neyðarvörnum, skyndihjálp, stjórnarstörfum og vinadeildasamstarfinu. Deildin þakkar sjálfboðaliðunum kærlega fyrir aðstoðina.

Þeir sem vilja gerast félagsmenn í Kópavogsdeild geta haft samband í síma eða skráð sig hér.