„Sjálfboðaliðastarfið hefur gefið mér innsýn í lífið” – viðtal við Elísabetu Þóru Gunnlaugsdóttur sjálfboðaliða

22. okt. 2009

Elísabet Þóra byrjaði sjálfboðaliðastörf sín fyrir Rauða krossinn hjá Vinalínunni snemma á tíunda áratug síðustu aldar. Þar svaraði hún í símann í þrjú ár og veitti stuðning og aðstoð með virkri hlustun. Hún segir að þetta verkefni hafi gefið henni undirstöðuna fyrir það sjálfboðna starf sem hún sinnir í dag en síðan 2004 hefur hún sinnt heimsóknaþjónustu og neyðarvörnum hjá Kópavogsdeild.

Fyrsta verkefni Elísabetar Þóru hjá deildinni var að heimsækja konu á einkaheimili. Síðar bætti hún á sig verkefni í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, vegna áhuga síns á geðheilbrigðismálum. Sem stendur sinnir hún heimsóknaþjónustu með því að lesa fyrir fólkið sem býr á sambýli aldraðra í Gullsmára. Fyrir þremur árum fór hún síðan á námskeið fyrir fjöldahjálpastjóra og er nú einnig í viðbragðshópi sem sinnir neyðarvörnum. Sjálfboðaliðar í þeim hópi eru á vikulangri vakt einu sinni í mánuði og eru þá reiðubúnir að aðstoða verði hamfarir, slys eða önnur áföll. Elísabet Þóra hefur tvisvar þurft að svara útkalli.

Mikilvægi sjálfboðaliða í neyðarvörnum er mikið að mati Elísabetu Þóru. Eftir atvikum hversu sinni sjá þeir um upplýsingasöfnun og dreifingu upplýsinga en helsta hlutverk þeirra sé þó að veita fólki hlýju og öryggi í formi sálræns stuðnings og stuðla þannig að jafnvægi á stað þar sem áfall eða hamfarir hafa dunið yfir. Mikið er lagt upp úr þjálfun og æfingum sjálfboðaliða í neyðarvörnum svo þeir geti brugðist rétt við þegar á reynir.

Það sem sjálfboðaliðastarfið hefur gefið Elísabetu Þóru er „innsýn í lífið”, eins og hún orðar það sjálf. Það gerir hana að þátttakanda í samfélaginu en áhugi hennar á fólki og lífinu almennt drífur hana áfram í starfinu. Slíkur áhugi er að hennar mati frumforsenda sjálfboðinna starfa.

Þeir sem vilja gerast félagsmenn í Kópavogsdeild geta haft samband í síma eða skráð sig hér.